Atvinnuviðtal og stress

Hefur þú farið í atvinnuviðtal og hreinlega dáið úr stressi? Varla munað hvað þú heitir, hvar þú hefur starfað áður eða af hverju þú sóttir um þetta starf? Ég hef lent í þessu líkt og margir og þegar hjartað ætlaði að springa, ég komin með bakflæði af stressi settist ég niður, tók nokkrar öndunaræfingar og róaði mig niður. Við lendum öll í því að verða stressuð og það er gott og heilbrigt svo framarlega sem þú lendir ekki inni á bráðamóttöku. Ég lít svo á að það sé mikið í húfi þegar nett stress kemur yfir mann. Þú ert jú að fara að skipta um lífsviðurværi og þig langar eflaust mikið til að starfa hjá þessu fyrirtæki. En varstu búin/n að undirbúa þig nægilega fyrir viðtalið?

Förum aðeins í gegnum þetta:

Til hamingju!

Þú ert á leið í viðtal þar sem þú sóttir um draumastarfið og vilt að sjálfsögðu vera draumastarfsmaðurinn sem fyrirtækið leitar logandi ljósi að.

Hér eru 5 einföld ráð sem gott er að hafa í huga:

  • Undirbúningur er mikilvægur. Þú kannt auðvitað ferilskrána þína utan að svo það ætti ekki að flækjast fyrir þér að svara en skoðaðu líka fyrirtækið sem þú sóttir um hjá. Hver eru verkefnin, hverju hafa þeir áorkað og hver er sagan?
  • Snyrtimennska er lykilatriði. Auðvitað ætti ekki að þurfa að tilgreina þetta en útlit er það fyrsta sem mætir nýjum yfirmanni. Sturta og vel greitt hár, hrein föt og pússaðir skór skipta máli. Eitt lítið atriði til viðbótar eru neglurnar. Sorgarrendur og of langar eða nagaðar neglur eru mjög óaðlaðandi (nema þú sért iðnaðarmaður).
  • Stundvísi. Mikilvægt er að mæta á réttum tíma og „5 mínútur í mætingu“ er kjörin regla. Ef þú mætir 5 mínútum fyrir fundinn nærðu að skoða vinnustaðinn, getur dregið andann, tekið af þér yfirhöfnina og þegið vatnsglas. Þar af leiðandi ertu tilbúinn í viðtal og getur slakað betur á.
  • Haltu ró þinni. Hlusta – hugsa – tala er góð regla. Hlustaðu á viðkomandi, gefðu þér tíma til að melta upplýsingarnar og svaraðu þegar þú ert tilbúin/n.
  • Vertu þú sjálf/ur. Fátt er meira aðlaðandi en sjálfsörugg manneskja sem veit hvað hún/hann vill og er örugg í eigin skinni.

 

Gangi þér vel