Háskóli Íslands
Betri háskóli – betra samfélag
Laust er til umsóknar starf doktorsnema í eðlisefnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Starfið er á sviði þéttiefnisrafhlaðna (e. solid-state batteries) og er styrkt til þriggja ára af Rannsóknasjóði. Þróun fastarafhlaðna sem hægt er að framleiða í stórum stíl er eitt af helstu markmiðum rafhlöðuiðnaðarins á þessari öld og krefst nýstárlegrar grunnrannsóknar.
Þéttefnisrafhlöður (solid-state batteries) bjóða upp á aukna orkugeymd, styttri hleðslutíma, lengri endingartíma og aukið öryggi þar sem notast er við fast efni sem jónaleiðara í stað eldfims vökva í hefðbundnum rafhlöðum. Verkefnið einblínir á LLZO þunnhúðir, en kristallað LLZO hefur háa jónaleiðni og góðan rafefnafræðilegan stöðugleika en er framleitt við hátt hitastig sem hindrar samþættingu þess inn í rafhlöður. Í þessu verkefni þróum við nýja tegund myndlauss LLZO jónaleiðara sem hugsanlega lausn við þessum áskorunum og leggjum grunn að sjálfbærum, háafkasta þéttefnisrafhlöðum sem hægt er að framleiða við lægra hitastig. Með því að sameina tilraunaaðferðir og reiknilíkön verður staðbundin bygging og jónaleiðni myndlauss LLZO rannsökuð með það að markmiði að hámarka jónaleiðni. Þéttnifellafræði (DFT) reikningar og hreyfihermanir (e. molecular dynamics) ásamt Monte Carlo aðferðum verða notaðir til að herma myndun og byggingu myndlausra LLZO jónaleiðara. Háþróuð hermunartól og hugbúnaðarpakkar eins og EON verða notaðir ásamt vélrænu námi (e. machine learning) til að búa til nákvæm mættisföll. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við tilraunarannsóknir sem fela í sér myndun og efnagreiningu þunnra LLZO húða, rafefnafræðimælinga og ýmissa greiningaraðferða.
Leiðbeinendur verða Dr. Anna B Gunnarsdóttir, nýdoktor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, og Dr. Hannes Jónsson, prófessor í eðlisefnafræði við Háskóla Íslands. Vinnan er hluti af verkefninu Staðbundin bygging og jónaleiðni í myndlausum garnet-efnum fyrir þéttefnisrafhlöður. Verkefnið fjármagnar að auki starf doktorsnema sem framkvæmir tilraunir í samstarfi við rannsóknahóp Dr. Friðriks Magnus, vísindamanns við Raunvísindastofnun. Valdir umsækjendur munu vinna í lifandi og fjölbreyttu rannsóknaumhverfi með víðtæku alþjóðlegu samstarfi við bæði tilrauna- og fræðilega hópa. Einstaklingar af öllum bakgrunni eru hvattir til að sækja um. Stefnt er að því að byggja upp fjölbreyttan hóp þar sem öll fái notið sín. Ef þú hefur áhuga á sjálfbærri efnafræði og þróun nýrrar rafhlöðutækni, gæti þetta tækifæri verið fyrir þig.
MSc gráða í efnafræði, eðlisfræði, efnisfræði eða skyldum greinum.
Sjálfstæð vinnubrögð og færni í mannlegum samskiptum.
Góð enskukunnátta, bæði í rituðu og töluðu máli.
Ráðning er háð því að umsækjandi sæki formlega um doktorsnám við deildina og að umsóknin sé samþykkt af deild, stundi umsækjandi ekki doktorsnám þar nú þegar.
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. september eða samkvæmt nánara samkomulagi.
Umsókn skal innihalda:
Kynningarbréf (hámark ein blaðsíða) þar sem kemur fram hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu, vísindalegur bakgrunnur og ástæður þess að viðkomandi vill vinna að doktorsverkefni.
Afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám).
Ferilskrá (hámark þrjár blaðsíður).
Upplýsingar um tvo meðmælendur, tengsl þeirra við umsækjanda og hvernig má hafa samband við þá.
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Við ráðningar í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.
Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun. Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag og er fjölbreyttur og lifandi vinnustaður. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi skólans og er mikið lagt upp úr sveigjanleika og þátttöku starfsmanna í uppbygginu náms og rannsókna við skólann.
Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 400 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Á sviðinu eru um 2000 nemendur, þar af um fjórðungurinn framhaldsnemar. Verkfræði- og náttúruvísindasvið stærir sig af fjölbreytileika og umbótasinnuðu umhverfi þar sem þekkingaröflun og miðlun er í fyrirrúmi.
Starfshlutfall er 70-100%
Umsóknarfrestur er til og með 30.04.2025
Anna Bergljót Gunnarsdóttir, annabg@hi.is
Hannes Jónsson, hj@hi.is
Fá tilkynningu um svipuð störf
Aðjúnkt í íþróttafræði. Háskóli Íslands, Menntavísindasvið Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf aðjúnkts á sviði íþrótta- og heilsufræði við...
Sækja um þetta starfDoktorsnemi á sviði sjálfbærra ofanvatnslausna Hlusta Starf doktorsnema í umhverfisverkfræði, byggingarverkfræði eða umhverfisvísindum, á sviði sjálfbærra ofanvatnslausna (einnig nefndar náttúrumiðaðar,...
Sækja um þetta starfDoktorsnemi í efnafræði Hlusta Laust er til umsóknar starf doktorsnema í efnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands undir leiðsögn...
Sækja um þetta starfNýdoktor eða tölfræðingur við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf nýdoktors eða reynslumikils tölfræðings...
Sækja um þetta starfLektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun – Heilbrigðisvísindasvið – Háskóli Íslands Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf lektors við Námsbraut...
Sækja um þetta starfDoktorsnemi í eðlisfræði Hlusta Laust er til umsóknar starf doktorsnema í eðlisfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Starfið er...
Sækja um þetta starf