Háskóli Íslands
Betri háskóli – betra samfélag
Laust er til umsóknar starf doktorsnema í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Verkefnið hefur verið fjármagnað til þriggja ára. Nemanum er ætlað að vinna að verkefni um orkumál í Sierra Leone með áherslu á samfélagslegar aðstæður.
Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun miðast við að ,,tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði” (SDG7). Sierra Leone, sem er eitt af samstarfslöndum Íslands á sviði þróunarsamvinnu, glímir við flókin úrlausnarefni við uppbyggingu orkukerfis innanlands og innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa. Verkefnið mun fjalla um þetta, með sérstakri áherslu á þarfir og væntingar fátækustu íbúanna. Nemandinn mun beita landfræðilegum og félagsvísindalegum aðferðum til að afla gagna á vettvangi, sem síðan verða túlkuð með hliðsjón af nýlegum kenningum og hugtökum sem fjalla um samfélagslegar hliðar orkumála. Gert er ráð fyrir talsverðu samstarfi við fræðifólk og fyrirtæki í Sierra Leone.
Verkefnið felur í sér:
Greiningu stefnuskjala sem varða orkumál í Sierra Leone.
Öflun gagna á vettvangi í völdum samfélögum í Sierra Leone með blönduðum aðferðum (t.d. kortlagningu, viðtölum og spurningakönnunum).
Úrvinnslu vettvangsgagna og túlkun þeirra með viðurkenndum aðferðum.
Birtingu og kynningu á niðurstöðum verkefnisins í ritrýndum, alþjóðlegum tímaritum, á ráðstefnum og málstofum hérlendis og erlendis.
Samantekt á niðurstöðum verkefnisins í doktorsritgerð undir lok doktorsnámsins.
Doktorsneminn mun nýta rannsóknaaðstöðu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er Karl Benediktsson, prófessor í landfræði.
Meistaragráða í landfræði, umhverfisfræði, félagsvísindum eða öðrum greinum sem hafa tengingu við viðfangsefnið.
Þekking á dreifðum orkukerfum byggðum á endurnýjanlegri orku í Afríku, einkum í Sierra Leone, er æskileg.
Reynsla af því að beita aðferðum úr landfræði og/eða félagsvísindum til að afla rannsóknagagna, sem og reynsla af úrvinnslu og túlkun slíkra gagna.
Reynsla af landupplýsingakerfum (t.d. QGIS) og öðrum hugbúnaði sem gagnast í verkefninu (t.d. KoboCollect) er æskileg.
Góð enskukunnátta í töluðu og rituðu máli.
Kunnátta í tungumálinu krio er æskileg.
Góð hæfni til að vinna sjálfstætt og með öðrum.
Reynsla af því að kynna niðurstöður verkefna í ræðu og riti.
Ráðning er háð því að umsækjandi sæki formlega um doktorsnám við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands eins fljótt og auðið er eftir að niðurstaða er fengin, og að umsóknin sé samþykkt af deildinni.
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Miðað er við að starf hefjist í september 2025.
Umsóknir skulu vera á íslensku eða ensku og innihalda:
Ferilskrá
Kynningarbréf þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann hefur fram að færa við mótun og framkvæmd þess og væntingar til námsins (hámark ein blaðsíða)
Afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám)
Tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvort og hvernig má hafa samband við umsagnaraðila
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.
Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag og fjölbreyttur og lifandi vinnustaður. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi háskólans og er mikið lagt upp úr sveigjanleika og þátttöku starfsfólks í uppbyggingu náms og rannsókna. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 390 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt, þar sem fjórðungur bæði starfsfólks og framhaldsnema við sviðið eru erlendir, og það hlutfall er sífellt að aukast. Á sviðinu eru um 2000 nemendur, þar af um fjórðungurinn framhaldsnemar. Verkfræði- og náttúruvísindasvið stærir sig af fjölbreytileika og umbótasinnuðu umhverfi þar sem þekkingaröflun og miðlun er í fyrirrúmi.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 16.06.2025
Karl Benediktsson, kben@hi.is
Fá tilkynningu um svipuð störf
Lektor í almennri hjúkrunarfræði með áherslu á hjúkrunarstjórnun og líknarhjúkrun Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf lektors í almennri...
Sækja um þetta starfLektor í almennri hjúkrunarfræði með áherslu á heimahjúkrun Hlusta Laust er til umsóknar 50% starf lektors í almennri hjúkrunarfræði við...
Sækja um þetta starf