Lögreglustjórinn á Vesturlandi auglýsir eftir umsóknum um stöður 2-3 lögreglumanna til starfa á Snæfellsnesi. Umrætt varðsvæði samanstendur af Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnesbæ, sveitarfélaginu Stykkishólmi og Grundarfjarðarbæ.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi er eitt níu lögregluumdæma landsins sem ákveðin eru í lögreglulögum nr. 90/1996 og reglugerð um umdæmi lögreglustjóra nr. 1150/2014. Hjá embættinu starfa nú liðlega 60 starfsmenn. Hjá embættinu er m.a. lögð áhersla á gagnsæi, frumkvæði starfsfólks, umhverfismál, orkuskipti, framúrskarandi þjálfun og símenntun, opin og jákvæð samskipti, vönduð vinnubrögð, framúrskarandi þjónustu og vilja til samvinnu og samstarfs.
Hlutverk lögreglu er m.a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers kyns lögmæta starfsemi, stemma stigum við afbrotum, koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, vinna að uppljóstrun brota, stöðva ólögmæta háttsemi og greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að. Um verksvið og ábyrgð lögreglumanna vísast nánar til 11. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um starfstig innan lögreglu.
Umsækjendur skulu hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómaprófi í lögreglufræðum sem jafngildir a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum, þ.m.t. starfsnámi á vegum lögreglunnar, en heimilt er þó að ráða ófagmenntað fólk til tímabundinna starfa ef ekki sækja um fagmenntaðir einstaklingar.
Nánar tiltekið er leitað eftir einstaklingum sem sýna færni til að vinna sjálfstætt og geta jafnframt leitt verkefni, sýna góða samskipta- og samvinnuhæfni, hafa frumkvæði og færni til að tileinka sér nýjungar og hafa góða almenna tölvukunnáttu og vilja til að starfa í auknum mæli í stafrænu umhverfi. Góð staðarþekking er jafnframt kostur sem og önnur menntun á háskólastigi.
Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Landssamband lögreglumanna hafa gert og jafnframt er gætt ákvæða gildandi stofnanasamnings.
Starfið er vaktavinna með bakvöktum að hluta, en unnið er samkvæmt valfrjálsu vinnufyrirkomulagi.
Starfshlutfall er 100%, en ráðning í minna starfshlutfall er jafnframt möguleg.
Ráðgert er að skipa í umræddar stöður frá 01.09.2023, en upphafstími starfs getur að öðru leyti verið eftir nánara samkomulagi.
Til að staðreyna hvort umsækjandi uppfylli skilyrði e-liðar 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglustjóra heimilt skv. 28. gr. a. sömu laga að afla upplýsinga um umsækjendur úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.
Umsóknarfrestur er til og með 1. ágúst n.k. og skal umsóknum skilað til lögreglustjórans á Vesturlandi með rafrænum hætti á [email protected] og merktar Lögreglumenn Snæfellsnesi.
Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur verða ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir munu gilda í 6 mánuði.
Í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglu eru konur hvattar sérstaklega til að sækja um. Þá eru þeir sem hyggja á nám í lögreglufræðum eða stunda slíkt nám jafnframt sérstaklega hvattir til að sækja um.
Nánari upplýsingar veitir Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn, í síma 444 0300