Kynningarbréf – Ferilskrá

Eins og þú hefur eflaust tekið eftir þá biðja flest fyrirtæki um ferilskrá og kynningarbréf og margir vita ekki hver munurinn á þessu tvennu er.

Kynningarbréf er persónuleg kynning á þér og þínum hæfileikum fyrir auglýst starf.

Ferilskrá er formlegt skjal um menntun, starfsreynslu og þess háttar.

Mikilvægt er að greina vel á milli þessara skjala. Ferilskrá er skjalið sem þú þarft ekki að breyta fyrir hverja umsókn en kynningarbréfið er gott að aðlaga hverju fyrirtæki og starfi fyrir sig.

Gott dæmi til að vekja áhuga þess sem sér um mannaráðningar er tölvupóstur sem byrjaði svona:  „Sæl Esther, ég heiti Hlín og Elsa mágkona mín sagði að ég yrði fullkomin í starfið sem þið eruð að auglýsa“.  Í kjölfarið fylgdu rök þessari staðhæfingu.

Passaðu þar af leiðandi að kynningarbréfið sé í þínum anda. Ef þú ert formlega týpan þá er kynningarbréfið þitt formlegt. Ef þú ert óformleg týpa þarf það að skína í gegn.

Ein gryfja sem margir falla í er upptalning á einhverju sem skiptir ekki máli og tengist starfinu sem sótt er um ekki neitt. Dæmi: barnið þitt er í knattspyrnu og æfir markmannsstöðu og er efnilegasti markmaður 7.flokks hjá Hetti Egilsstöðum. Þessar upplýsingar skipta starfsmannastjóra engu máli. Hins vegar er í lagi að tilgreina stuttlega fjölskylduhagi ef þú vilt að þeir komi fram.

Hafðu því í huga eftirfarandi punkta þegar þú semur kynningarbréfið þitt:

  • Hafðu bréfið í þínum stíl.
  • Svaraðu því sem auglýsingin kallar eftir.
  • Mátaðu þig inn í fyrirtækið og tilgreindu hvers vegna þú ættir að koma til greina.
  • Ekki endurtaka ferilskrána þína.
  • Ekki tilgreina hluti sem koma starfinu ekkert við.

Kynningarbréf sem tölvupóstur með ferilskrá í viðhengi

Ef ferilskráin þín er viðhengi við tölvupóst er gott að nota meginmál tölvupósts sem kynningarbréf.  Tilgreindu greinilega hvers vegna þú ættir að koma til greina í starfið og hvernig þú passar inn í fyrirtækið. Þannig kemur þú strax vel fyrir og kveikir áhuga atvinnurekandans á að vita meira um þig og þína reynslu.

  • Sem innihald (subject) í tölvupóstinum er nauðsynlegt að tilgreina titil á auglýsingunni, nr. auglýsingar eða tilvitnun og hvar þú sást auglýsinguna. Dæmi: Staða ritara hjá Nettengslum, auglýst á Job 25.05.2019
  • Í meginmáli tilgreini þú í þremur til fimm punktum, hvers vegna þú ert draumastarfsmaðurinn.
  • Ferilskrá skal merkja skilgreinilega með nafni og senda sem viðhengi.
  • Passaðu að lesa yfir allt efni sem þú sendir frá þér.

 

https://www.job.is/submit-resume/

Vöktun starfa

Skoða störf

Gangi þér vel

Job